Samninganefnd ASÍ hitti forystu SA á fundi hjá ríkissáttasemjara 10. febrúar til að freista þess að koma kjaraviðræðum í gang að nýju en þær höfðu að mestu legið niðri í tvær vikur vegna þeirrar kröfu SA að niðurstaða vegna breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu lægju fyrir áður en samið yrði. Niðurstaða þess fundar var að hefja samningaviðræður að nýju. Jafnframt var ákveðið að gefa landssamböndunum og félögunum rými til að vinna áfram að samningum um sín mál. Hefur sú vinna gengið vel. Mánudaginn 21. febrúar var síðan sett í gang vinna við samninga um sameiginleg mál, önnur en launin sjálf, í samræmi við kröfugerð sem sett var fram af samninganefnd ASÍ. Er unnið í sex hópum að málum sem eru á sameiginlegu borði allra félaga. Þessir hópar eru:
Vaktir og yfirvinna
Jafnrétti, persónuvernd og samráð
Lífeyrismál
Aðilaskipti, kennitöluflakk og svört atvinnustarfssemi
Opinber útboð
Slysa- og veikindaréttur
Þrátt fyrir að forseti Íslands hafnaði lögunum um Icesave staðfestingar er enn unnið að því að gera 3ja ára kjarasamning og miðast viðræður m.a. við stjórnvöld við það. Samkvæmt tímaplani er miðað við það að ljúka þessum viðræðum fyrir miðjan mars en að launabreytingar taki gildi frá 1. mars. Við það er miðað að samningurinn öðlist ekki gildi fyrr en eftir 3ja mánaða aðlögunartíma, þar sem unnið verður að því að hrinda í framkvæmd ýmsum breytingum og ákvörðunum sem stjórnvöld og Alþingi þurfa að efna í tengslum við samninginn. Samkomulag er um að vegna tímabilsins mars-maí verði greidd eingreiðsla og gangi hlutirnir eftir mun samningurinn sjálfur taka gildi í júní. Náist ekki samkomulag við stjórnvöld og Alþingi breytist samningurinn í skammtímasamning fram á haustið.
Ljóst má vera að veik staða íslensku krónunnar setur þróun kjaramála í mikla óvissu vegna mikils ójafnvægis í gjaldeyrishreyfingum auk gjaldeyrishafta. Samninganefnd ASÍ hefur því lagt mikla áherslu á að samhliða afnámi gjaldeyrishaftanna verði mörkuð trúverðug leið til þess bæði að styrkja gengi krónunnar um a.m.k. 15% og jafnframt tryggja stöðuleika hennar.