Ályktun SGS um málefni heimilanna

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á 3ja þingi SGS þann 14. okt. sl.:


 


Þing Starfsgreinasambands Íslands lýsir þungum áhyggjum yfir erfiðri stöðu heimila í landinu. Háir vextir, mikil verðbólga, fall krónunnar, og atvinnuleysi hafa skilið fjölmargar fjölskyldur og einstaklinga eftir á barmi eignamissis og gjaldþrots, auk þeirra sem nú þegar hafa misst allt sitt. Fjármálastofnanir verða að axla sína ábyrgð á skuldavanda heimilanna og nýta það svigrúm sem þeim var veitt til þess að leiðrétta þessar skuldir.
Þing Starfsgreinasambandsins fagnar auknu framboði af óverðtryggðum húsnæðislánum. Þingið bendir þó á að enn er langt í land að Íslendingum bjóðist sambærileg lánakjör og eru í boði í nágrannalöndum okkar.
Þingið krefst þess að stjórnvöld og Seðlabanki Íslands hagi efnahags- og peningastefnu sinn með þeim hætti að íslensk heimili losni við vaxtaokur og fái að búa við sambærileg kjör og almenningur í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.
Þá telur þing Starfsgreinasambandsins mikilvægt að tekju- og eignatenging vaxtabóta og barnabóta verði endurskoðuð líkt og gefin voru fyrirheit um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga. Þingið telur einnig mikilvægt að ríkisvaldið og sveitarfélögin hækki húsaleigubætur og dragi úr tekjutenginu þeirra. Þetta er sérstaklega aðkallandi þar sem húsaleigubætur hafa ekkert hækkað frá því fyrir hrun. Þingið krefst þess þess að heimilum í landinu verði ekki mismunað eftir því hvort þau eru í eigin eða leigu húsnæði. 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei