Bætt réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Þessi frétt er tekin af vef ASÍ og birtist þar í fréttabréfi októbermánaðar:


 


Bætt réttarstaða launafólks við aðilaskipti


Í kjölfar hrunsins 2008 fóru fjölmörg fyrirtæki í gjaldþrot og var rekstur þeirra eftir það seldur af skiptastjórum þeirra, ýmist í heilu lagi eða hlutum, til nýrra aðila sem héldu áfram rekstri með sama starfsfólki. Í mörgum tilvikum glataði launafólk verulegum réttindum sem hefðu varðveist hefðu aðilaskipti átt sér stað fyrir gjaldþrot. Til þess að liðka fyrir gerð kjarasamninga í maí 2011 og að kröfu ASÍ lofuðu stjórnvöld í yfirlýsingu sinni þann 5. maí að „…beita sér fyrir lagabreytingum á yfirstandandi þingi til að bæta réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti, en ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, er varða launakjör og starfsskilyrði sem og vernd gegn uppsögnum, eiga ekki við í þeim tilvikum þegar fyrirtæki eru tekin til gjaldþrotaskipta.“
Þetta loforð hefur nú verið efnt með setningu laga 103/2011. Með þeim kom ný 3.mgr. 3.gr. inn í lög 72/2002 um aðilaskipti. Þar segir: „Þegar um er að ræða aðilaskipti að fyrirtæki sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta skal framsalshafi virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir fyrri vinnuveitanda á þeim degi er úrskurður var kveðinn upp um að fyrirtækið skyldi tekið til gjaldþrotaskipta þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða annar samningur kemur í hans stað. Vanefndir þess vinnuveitanda á skyldum hans gagnvart starfsmönnum fyrir þann dag færast ekki yfir til framsalshafa. Hið sama gildir komi innan þriggja mánaða frá framsali hins gjaldþrota fyrirtækis til endurráðningar fyrrum starfsmanna þess sem voru í starfi á úrskurðardegi.“ Orðalagið varðandi skyldur framsalshafa og réttindi starfsmanna varðandi launakjör og starfsskilyrði er orðrétt það sama og notað er um hefðbundin aðilaskipti í lögunum.
Þetta nýja ákvæði er í góðu samræmi við 4.tl. 5.gr. tilskipunar 2001/23/EB sem lögin íslensku um aðilaskipti byggja á. Þar segir að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að gjaldþrotameðferð sé ekki misnotuð í þeim tilgangi að svipta launafólk þeim réttindum sem tilskipunin kveður á um. Þær ráðstafanir voru ekki gerðar við upphaflega innleiðingu tilskipunarinnar en úr því hefur nú verið bætt.
Magnús Norðdahl, lögfræðingur. 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei