Stjórn og trúnaðarmannaráð Stéttarfélags Vesturlands hélt fund í gærkveldi um forsendur kjarasamninga á almennum markaði. Farið var yfir þau efnisatriði er snúa að samskiptum við atvinnurekendur og þar hafa hlutirnir gengið þannig fyrir sig að ekki eru talin efni til viðbragða.
Þegar yfirlýsing ríkistjórnarinnar sem fylgdi samningunum og er ein af forsendum samningsins er skoðuð, er fátt sem hægt er að haka í sem gert. Fjörugar umræður urðu á fundinum og nokkuð tekist á um hvort rétt væri að krefjast þess að ríkisstjórnin færi frá. Sýndist það sitt hverjum, allt frá því að líst var stuðningi við ríkisstjórnina í þeirri erfiðu stöðu sem hún væri í til þess að krefjast þess að stjórnin færi frá tafarlaust og efnt skyldi til kosninga. Minnt var á að þessi ríkisstjórn sem nú situr hefði komið í kjölfar þess að krafist var afsagnar fyrri ríkisstjórnar, kosningar skiluðu okkur ekki endilega betri ríkisstjórn. Niðurstaða fundarins var sú að ekki væri neinu að bæta við ályktun stjórnar félagsins frá 15. desember (sjá hér) og leiðara síðasta fréttabréfs (sjá hér), einnig frá því í desember 2011.
Forsvarsmönnum félagsins var falið að koma þessum skilaboðum áfram til formannafunda Starfsgreinasambandsins og Alþýðusambandsins sem haldnir verða 18. og 19. janúar næstkomandi.