Samningum ekki sagt upp – laun hækka 1. febrúar

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Frétt af vef ASÍ:
 
Yfirlýsing samninganefndar ASÍ vegna endurskoðunar kjarasamninga
Samninganefnd ASÍ hefur í dag ákveðið að segja ekki upp gildandi kjarasamningum þrátt fyrir vanefndir stjórnvalda á þeim fyrirheitum sem gefin voru við gerð þeirra.


Ljóst er að mikill meirhluti aðildarfélaga Alþýðusambandsins telur að mikil verðmæti liggi í þeim launahækkunum sem kjarasamningarnir tryggja og að ekki sé forsvaranlegt að grípa til uppsagna þeirra við núverandi aðstæður. Þetta er niðurstaða umfangsmikillar umræðu sem átt hefur sér stað um forsendur kjarasamninga og framgang þeirra undanfarnar tvær vikur meðal samninganefnda rúmlega 50 aðildarfélaga ASÍ. Aðeins þrjú þeirra vildu segja upp samningum.



Þær forsendur sem lúta að beinum samskiptum launafólks og fyrirtækja á borð við kaupmáttaraukningu launa, stöðugu verðlagi og styrkingu krónunnar standast. Því er ekki ástæða til neinna sérstakra viðbragða af hálfu samninganefndarinnar gagnvart atvinnurekendum. Allar forsendur eru fyrir hendi að kaupmáttur almennra launa hækki þriðja árið í röð og mikilvægt að tryggja að af því verði.  Fjórða forsenda kjarasamninga snýr að efndum ríkisstjórnarinnar á þeim fyrirheitum sem gefin voru með yfirlýsingu hennar frá 5. maí 2011.


 


Það er ekki ofsögum sagt að samskipti verkalýðshreyfingarinnar við ríkisstjórnina vegna vanefnda hennar á mikilvægum liðum yfirlýsingarinnar hafa verið með slíkum ólíkindum að hrikt hefur í stoðum. Í þeim erfiðleikum sem þjóðin er í hafa aðildarfélög Alþýðusambands Íslands lagt mikla áherslu á að skapa forsendur fyrir breiðri sátt á vinnumarkaði og við stjórnvöld. Sátt sem lagt geti grunninn að öflugri sókn í efnahags-, kjara- og atvinnumálum. Mikilvægur liður í þessu var að tryggja frið á vinnumarkaði á sama tíma og sóttar hafa verið kjarabætur fyrir íslenskt launafólk. Með gerð kjarasamninganna á síðasta ári tókst þetta verkefni. Það er því makalaust að það skuli vera ríkisstjórn Íslands sem er sá aðili sem ógnar þeirri sátt sem náðst hefur á vinnumarkaði.


 


Þrátt fyrir mikla tregðu á stjórnarheimilinu hefur við þessa endurskoðun kjarasamninga tekist að þoka áfram mikilvægum málum. Má þar nefna tilraunaverkefni þar sem stéttarfélögin í samstarfi við atvinnurekendur koma í ríkara mæli að þjónustu við atvinnuleitendur einkum í formi ráðgjafar og vinnumiðlunar. Átak verður gert í baráttunni við félagsleg undirboð í tengslum við útboð þjónustu og verklegra framkvæmda og kennitöluflakk. Alþýðusambandið mun koma að endurskoðun laga um almannatryggingar sem miða m.a. að því að koma á frítekjumarki vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum.


Þegar kemur að atvinnumálum stendur enn margt út af borðinu og fátt verið gert. Sérstök vonbrigði vekur sá seinagangur sem er í afgreiðslu rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem átti að liggja fyrir í lok síðasta árs. Mikilvægt er að sú vinna við faglega forgangsröðun virkjanakosta, sem átt hefur sér stað sl. 10 ár, verði lögð fram á Alþingi og að um hana geti verið breið sátt því með henni yrði lagður grunnur að 10-15 ára uppbyggingu atvinnulífs í sátt við náttúruna.


 


Þrátt fyrir að tekist hafi að þoka málum áfram eru það mikil vonbrigði og að sama skapi ámælisvert að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar séu með þeim hætti að málum er hleypt í farveg átaka um efnisatriði sem sátt hafði náðst um fyrir átta mánuðum. Innan raða Alþýðusambandsins ríkir mikil gremja í garð stjórnvalda vegna þessa. Það er ólíðandi að íslenskt launafólk skuli ekki geta treyst orðum oddvita ríkisstjórnarinnar.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei