Iceland aftur með lægsta verðið

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Verslunin Iceland Engihjalla var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum víðsvegar um landið mánudaginn 1. október. Hæsta verðið var oftast að finna í verslun 10/11 Laugavegi eða í um helmingi tilvika, en eins og áður sagði var lægsta verðið oftast að finna í versluninni Iceland, Bónus á Akureyri kom þar á eftir með lægsta verðið í um fjórðungi tilvika. Oftast var verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru frá 25% upp í 75% en í um fjórðungi tilvika var meira en 75% verðmunur.


Verslanirnar Kostur og Víðir neituðu að taka þátt í könnuninni.


Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar hjá Fjarðarkaupum Hafnarfirði eða 94 af 99, Nóatún í Nóatúni átti til 89 og Hagkaup Skeifunni átti til 83. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Samkaupum-Strax Akranesi eða aðeins 52 af 99, Kaskó Húsavík átti til 57 og 10/11 átti 64.


Mikill verðmunur á öllum vörum í körfunni
Af þeim 99 matvörum sem skoðaðar voru, var verðmunurinn í 16 tilvikum undir 25%, í 30 tilvikum var verðmunurinn 25-50%, í 25 tilvikum var 50-75% verðmunur og í 10 tilvikum var yfir 100% verðmunur. Minnstur verðmunur var á laxasalati frá Eðalsalötum, sem var ódýrast á 318 kr. hjá Iceland og dýrast á 329 kr. hjá Kjarval Hvolsvelli, verðmunurinn er 11 kr. eða 3%. Mestur verðmunur í könnuninni var á ½ l. dós af léttbjór frá Egils, sem var dýrust á 249 kr. hjá 10/11 og ódýrust hjá Iceland á 84 kr. verðmunurinn er 165 kr. eða 196%.


Af öðrum vörum í könnuninni má nefna t.d. að mikill verðmunur er á 2 kg. af Kornax hveiti sem var ódýrast á 278 kr. hjá Bónus en dýrast á 499 kr. hjá 10/11 sem er 79% verðmunur. Annað dæmi um mikinn verðmun má nefna KEA karamelluskyr 200 gr. sem var ódýrast á 149 kr. hjá Iceland en dýrast á 229 kr. hjá 10/11 verðmunurinn eru 80 kr. eða 54%. Morgunmaturinn frá Quaker – koddar 375 gr. var ódýrastur á 516 kr. hjá Iceland en dýrastur á 814 kr. hjá Samkaupum-Strax verðmunurinn eru 298 kr. eða 58%. Laxaflak var ódýrast á 1.998 kr./kg. hjá Nettó og Samkaupum-Úrvali en dýrast á 3.999 hjá 10/11 sem er 100% verðmunur. Sem dæmi um mjög dýra matvöru má nefna ferska myntu sem er seld í t.d. í 20 gr. og 50 gr. umbúðum en er hún dýrust á 18.400 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum en ódýrust á 9.580 kr./kg. hjá Bónus, verðmunurinn er 8.820 kr. eða 92%, .
 
Sjá nánari upplýsingar í töflu.


Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.


Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Akureyri, Krónunni Reyðafirði, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Nóatúni, Samkaupum Úrval Akureyri, Hagkaupum Skeifunni, Samkaupum Strax Akranesi, Kaskó Húsavík, 10/11 Laugavegi og Kjarval Hvolsvelli.


Verslunin Kostur og verslunin Víðir neituðu þátttöku í könnuninni
Kostur Dalvegi og Víðir heimiluðu ekki verðlagseftirlitinu að taka niður verð í verslun sinni.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei