Allt að 57% verðmunur á skólabókum

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á nýjum og notuðum skólabókum fyrir framhaldsskóla í bókaverslunum landsins á höfuðborgarsvæðinu á þriðjudag. Farið var í 6 verslanir og skoðað verð á 32 algengum námsbókum. Aðeins Griffill Skeifunni átti til allar bækurnar, Bóksala Stúdenta Háskólatorgi átti til 31 titil af 32, A4 Skeifunni átti til 29 titla af 32, Eymundsson Kringlunni átti til 28, Forlagið Fiskislóð 26 og Bókabúðin IÐNÚ í Brautarholti átti 22. Sjá könnunina í heild sinni hér.


Forlagið og A4 voru oftast með lægsta verðið á nýjum bókum í þessari verðkönnun en 9 titlar af 32 voru ódýrastir hjá þeim. Griffill kom þar á eftir með lægsta verðið á 7 titlum og Bóksala Stúdenta á 6. Bókabúðin IÐNÚ var oftast með hæsta verðið á nýjum bókum eða á 17 titlum af 32, Bóksala Stúdenta á 6 og Eymundsson á 5.
Mestur verðmunur í könnuninni var á sögubókinni “Íslands- og mannkynnssaga NB II: Frá lokum 18 aldar til aldamóta 2000“, en bókin var dýrust á 4.990 kr. hjá  IÐNÚ en ódýrust á 3.180 kr. hjá Forlaginu sem er 1.810 kr. verðmunur eða 57%. Sami hlutfallslegi verðmunur var á bókinni „Setningafræði handa framhaldsskólum“ sem var dýrust á 1.880 kr. hjá IÐNÚ en ódýrust á 1.199 kr. hjá Griffli sem er 681 kr. verðmunur eða 57%.
Minnstur verðmunur að þessu sinni var á bókinni “Hvernig veit ég að ég veit“, en bókin var dýrust á 3.599 kr. hjá Eymundsson en ódýrust á 3.483 kr. hjá Bóksölu Stúdenta sem er 3% verðmunur.
Mikill verðmunur á skiptibókum.
Af þeim þremur bókaverslunum sem eru með skiptibókamarkað, var A4 oftast með lægsta útsöluverðið á notuðum skólabókum sem skoðaðar voru eða á 14 titlum af 19. Grifill var oftast með hæsta útsöluverðið eða á 13 titlum og Eymundsson á 9. Eymundsson átti til 11 titla af 19 þegar könnunin var gerð en Griffill og A4 alla 19. Í um helmingi tilvika er sama útsöluverð á notuðum bókum, hjá Griffli og Eymundsson. Munur á álagningu skiptibókamarkaðanna var í flestum tilvikum mikill eða um og yfir 50%.
Sjá nánari niðurstöður í töflu
Námsmenn ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört hjá verslunum við upphaf skólaárs. Úrval notaðra bóka á skiptibókamörkuðum var mjög misjafnt eftir verslunum þegar könnunin var gerð en getur breyst með skömmum fyrirvara.
Kannað var verð á nýjum bókum í eftirtöldum verslunum: Bóksölu stúdenta Háskólatorgi, Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni, Griffli Skeifunni, Forlaginu Fiskislóð og Bókabúðinni Iðnú Brautarholti. Kannað var verð á notuðum bókum í eftirtöldum verslunum: Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni og Griffli Skeifunni.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum eða við sölu nema með heimild ASÍ.
  

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei