Yfirlýsing vegna sjálfboðaliða

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) og Bændasamtök Íslands (BÍ) hafa undirritað yfirlýsingu vegna sjálfboðaliða en í yfirlýsingunni kemur fram sameiginlegur skilningur um sjálfboðaliða og sjálfboðastörf. SGS og BÍ eru með gildandi kjarasamning um störf fólks í landbúnaði og ber að greiða lágmarksendurgjald fyrir vinnu eftir honum.


Í yfirlýsingunni segir meðal annars:


„Það er sameiginlegt viðfangsefni aðila að stuðla að því að fyrirtæki og lögbýli í framleiðslu eða þjónustu, greiði laun og starfskjör í samræmi við kjarasamninga og lög hér á landi.


Ef kjarasamningar eru ekki virtir grefur það undan starfsemi annarra og spillir forsendum eðlilegrar samkeppni og dregur úr ávinningi alls samfélagsins af traustu og heilbrigðu atvinnulífi.


Í því ljósi telja Starfsgreinasamband Íslands og Bændasamtök Íslands mikilvægt að sameiginlegur skilningur gildi á vinnumarkaði um störf sjálfboðaliða.


Samtökin árétta að það er andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja og lögbýla. Um þessi störf gilda ákvæði kjarasamninga, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks. Launafólk hefur sinnt þessum störfum og verður því ekki skipt út fyrir sjálfboðaliða. Samningar við einstaklinga um lakari kjör en kjarasamningar kveða á um eru ógildir.“


Þá er viðurkennt í yfirlýsingunni að vinir og ættingjar geta aðstoðað tímabundið í skamman tíma svo sem í göngum og réttum enda hefur Starfsgreinasambandið aldrei gert athugasemdir við slíkt. Hins vegar er það sameiginlegur skilningur SGS og BÍ að það er ólöglegt að fá sjálfboðaliða til starfa í landbúnaði í gegnum samtök eða heimasíður.


Yfirlýsingin í heild sinni


Kjarasamningur SGS og BÍ


 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei