Eftirfarandi samþykkt var gerð á fundi stjórnar Stéttarfélags Vesturlands, Sæunnargötu 2 í Borgarnesi 7. desember 2009:
Stjórn Stéttarfélags Vesturlands skorar á félagsmálaráðherra að draga til baka frumvörp til laga um breytingar á atvinnuleysistryggingum og fæðingarorlofi sem hann hefur lagt fram.
Vandi atvinnuleysistryggingasjóðs er ekki skortur á lagaúrræðum heldur skortur á fjármunum og starfsfólki til að fylgja gildandi lögunum eftir. Vandi atvinnulausra verður ekki leystur nema með framboði á atvinnu eða virkum vinnumarkaðsúrræðum. Enginn verður sveltur til vinnu þegar vinnu er ekki að hafa. Þau hertu refisákvæði sem í frumvarpinu felast munu einungis valda því að þeir sem af einhverjum ástæðum hrekjast af greiðsluskrá Greiðslustofu þurfa að leita á náðir félagsþjónustu sveitarfélaganna, sem einnig er vanbúin að leysa vanda þessa hóps.
Verkalýðshreyfingin hefur lengi óskað eftir því að fá að koma til hjálpar við að vinna úr þeim vanda sem atvinnulausir glíma við, en stjórnvöld hafa í raun hafnað öllum hugmyndum þar um og stundum með fáránlegum rökum.
Hafa stjórnvöld gleymt því að þetta eru réttindi sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp með blóði svita og tárum? Áunninn réttur.
Hvað varðar hugmyndir ráðherra um breytingar á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði, þá verða þær verri eftir því sem fleiri hugmyndir koma fram. Greiðslur til verðandi foreldra hafa á sl. ári verið skertar langt umfram kröfur ríkisstjórnarinnar um niðurskurð til velferðarmála.
Nú er mál að ráðherra hætti þessum árásum á velferðarkerfið, áður en hann eyðileggur fleiri möskva í því öryggisneti sem verkalýðshreyfingin hefur hnýtt fyrir sitt fólk, sem landsmenn hafa allir notið góðs af.
Vissulega er fjárþörf til uppbyggingar, en þeir fjármunir verða ekki sóttir í vasa atvinnulausra eða foreldra í fæðingarorlofi, leita verður annarra leiða.
Signý Jóhannesdóttir
formaður
430-0432/894-9804