Ávarp Stéttarfélags Vesturlands sem var flutt á baráttufundum í Borgarnesi og í Búðardal

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Ágætu samkomugestir – gleðilegan baráttudag!

Fyrir hönd stéttarfélaganna vil ég senda verkafólki um allan heim baráttukveðjur og taka undir kröfuna um jafrétti, frið og bræðralag öllu verkafólki til handa.

Reyndar er krafan um frið nauðsylegri en oft áður þar sem við stöndum allt í einu á því herrans ári 2022, frammi fyrir ófriði í okkar nánasta umhverfi. Innrás Rússa í Úkraínu er eitthvað sem mjög fáir sáu fyrir og líklega hefur venjulegt verkafólk, sem stritar í dagsins önn ekki látið sér detta í hug að stríðsátök kæmu í kjölfar heimsfaraldurs. Við Íslendingar sem höfum aðallega kynnst bardögum og stríði í gegnum fornsögurnar okkar, þar sem menn héldu á brott með víkingum og hjuggu mann og annan, við skiljum ekki upplifun þeirra sem flýja bardaga og sprengjuárásir. Við getum lítið gert annað en að bjóða fram aðstoð við flóttafólkið og vona svo að þessari brjálsemi linni sem fyrst.

Við erum hér samankomin á baráttusamkomu í tilefni 1. maí eftir tveggja ára hlé, vegna heimsfaraldurs.

Þessi ár hafa verið um margt undarleg hjá stéttarfélögunum sem byggja starfsemi sína á mannlegum samskiptum, fundahöldum og heimsóknum á vinnustaði. Við höfum þurft að beina félagsmönnum meira og minna á rafræn samskipti, nota síma og tölvupósta. Fundahöld í verkalýðshreyfingunni hafa að stórum hluta farið í gegnum vefinn. Allir eru að verða sérfræðingar í Zoom og Teams og hvað þetta heitir allt. Vissulega munum við sem samfélag nýta okkur tæknina áfram í þeim tilfellum þar sem við höfum séð að þessi aðferð til samskipta sparar fé og tíma. Ekkert kemur þó í staðinn fyrir það að hitta fólk og eiga í eðlilegum samskiptum maður á mann.

Þessi tveir atburðir, heimsfaraldur og stríðsátök munu hafa áhrif á samfélgagið langt út fyrir þann tíma sem þeir standa. Vöruskortur og verðlag eru þættir sem hafa sífellt meiri áhrif á okkur. Alþjóðavæðing og viðskipti sem ganga hratt fyrir sig milli landa, kauphallarbrask og spákaupmennska hefur áhrif nær samstundis um allan heim. Við heyrum talað um hækkun á hrávöru, hækkun á korni, hækkun á áburði. Þetta hækkar verð á matvælum o.s. frv. Við íslendingar höfum ekki kippt okkur upp við verðbólgutölur og þekkjum alveg tveggja stafa tölur í þeim efnum, þrátt fyrir að við höfum séð ótrúlega lágar tölur bæði í vöxtum og verðbólgu í nokkur undanfarin ár. En þau ár eru að baki og allt útlit fyrir að framtíðin muni ekki verða okkur hliðholl í þeim efnum. Það er líka mikið áhyggjuefni að nú æðir verðbólga áfram í viðskiptalöndum okkar og jafnvel er verðbólga í Bandaríkjunum hærri en hér á landi. Þessar staðreyndir munu hafa áhrif á lífskjör á næstu misserum, jafnvel mörgum næstu árum.

Á komandi hausti, eða í vetrarbyrjun, eru kjarasamningar lausir á almennum markaði. Samningar við ríki og sveitarfélög losna svo þegar kemur fram á árið 2023. Við getum búist við því að óstöðugt verðlag muni hafa áhrif á kröfugerðir stéttarfélaganna þegar þær verða settar fram. Krafan um aukinn kaupmátt verður þar ofarlega á blaði. En það er hægt að bæta kjör og auka kaupmátt með fleiru en krónum í launaumslagið. Ríkisvaldið hefur á tíma heimsfaraldursins verið bóngott við atvinnulífið og stutt það með ráðum og dáð til að fyrirtækin þyrftu ekki að hætta starfsemi og starfsmenn héldu ráðningarsambandi. Vissulega hefur það ekki alltaf tekist en þó um margt betur en mátt hefði búast við.

Nú er komið að því að finna þurfi leiðir fyrir almenning í landinu, verkafólk á lægstu launum, barnafólk, ungt fólk í húsnæðisleit, þá sem búa við skerta starfsorku og einnig aldraða með lítinn lífeyrisrétt, að fá sína umbun frá stjórnvöldum. Bæta þarf lífskjör þessara hópa í gegnum skattkerfið og nýta þær leiðir sem millifærsla frá þeim ríku til hinna fátækari getur fært þeim. Það er nóg til spurningin er bara um hvernig gæðum samfélagsins er skipt milli þegnanna og aðstaðan jöfnuð og bætt fyrir lítilmagnan.

Það er ekki hægt að ávarpa félagsmenn verkalýðsfélaga á Íslandi í dag 1. maí 2022, án þess að nefna þann ófrið sem ríkir í verkalýðshreyfingunni. Oft hefur gustað um hreyfinguna á liðnum 100 árum. Saga hennar með sorgum og sigrum er samt aðdáunarverð baráttusaga þeirra sem vörðuðu leiðina.

Þeir sem muna auglýsingu ASÍ sem sýnd er um hver áramót vita hvað við er átt. Flestar framfarir í réttindabaráttu verkafólks hefa komið í gengum samstöðu verkfólks, sem knúið hefur atvinnurekendur og stjórnvöld til þess að bæta lífskjör fólks.

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur eru frá því 1938. Samið var um lífeyrissjóðakerfið 1969. Starfskjaralögin eru frá því 1980. Lög um Fæðingarorlof eru frá því 2000 og svona mætti lengi telja. Við getum nefnt fræðslusjóði verkafólks og Virk starfsendurhæfingu sem nýlegri dæmi. Allt eru þetta sigrar sem hreyfingin er stolt af en hefur ekki eignuð neinum einstaklingum, heldur órofa samtöðu og baráttuvilja þar sem enginn keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.

Á nokkrum síðustu árum hefur komið fram fólk í forystu verkalýðshreyfingarinnar sem hefur aðra sýn en þeir sem á undan gengu. E.t.v. eru þessi einstakligar líkari fólki sem stóð í stafni áður en lög um stéttarfélaög og vinnudeilur urðu til 1938. Fólk sem er uppfullt af trú á sjálft sig og sína persónu. Fólk sem vill láta klappa fyrir sér á fundum, félagsmenn eiga allir að vera þeim sammála og falla fram í tilbeiðslu. Þetta eru verkalýðsforkólfar, róttækir leiðtogar með steytta hnefa, horfa á slaginn, aðferðina en ekki niðurstöðuna þegar staðið er upp frá samningsborðinu.

Við höfum þarna forystufólk í stærstu verkalýðsfélögum landsins, sem segir að það hafi unnið stórsigra í kosningum, samt er það kosið til forystu af innan við 10% félagsmanna þessara félaga. Ábyrgð þeirra sem ekki taka þátt er ógnvænleg, meira en 80% taka ekki þátt.

Hópuppsögn starfsmanna Eflingar er eitthvað það ógeðfeldasta sem átt hefur sér stað í samskiptum launagreiðanda og starfsmanna í langan tíma. Blinda meirihluta stjórnarinnar og fomannsins á misgjörðum sínum er órtúleg. 1938 með lögum um stéttarfélög og vinnudeilur var launagreiðendum bannað að reyna að hafa áhrif á skoðanir starfsmanna. Lög um hópuppsagnir númer 63 frá 2000 fjalla um það þegar fyrirtæki neyðist til að segja upp fólki og hvernig á að vinna að því að koma í veg fyrir uppsagnir, eða minnka skaðann eins og kostur er. Það skín í gegnum umfjöllunina um lögin að þetta er neyðarráðstöfun, þegar fyrirtækið á í restrarörðugleikum s.s. vega falls markaða og framtíð fyrirtækisins er e.t.v. engin og  það hættir störfum. Að segja upp öllu starfsfólki stéttarfélags vegna þess að það fellur ekki fram og tilbiður formanninn, er honum jafnvel ósammála í einhverjum tilfellum, er óskiljanleg.

Það gefur auga leið þeim sem á annað borð sjá, að stéttarfélög eiga að vera fyrirmyndarvinnustaðir og virða réttindi og kjör starfsmanna sinna í hvívetna.

Forystufólk eins og formenn landssambandana SGS og LÍV  hafa ekki getað talað skýrt og fordæmt þessa framgöngu forystu Eflingar og er það þeim persónulega til minnkunar. Það rýrir trúverðugleika þeirra félaga og sambanda sem þeir eru í forsvari fyrir. Þeir verða uppvísir að því að meta samskipti sín við formann Eflingar og stuðning við þá persónulega til embætta innan hreyfingarinnar meira heldur en heiðarleika og stuðning við 50 starfsmenn skrifstofunnar. Að maður tali ekki um trúverðugleika gagnvart verkafólki almennt.  Hvernig formaður Eflingar hefur talað um starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar og starfsmenn ASÍ er hreint út sagt ömurlegt. Það er vandfundinn viðbjóðslegur kapítalisti sem myndi nota samskonar orðfæri.

Það er nokkuð ljóst að þessu stríði innan verkalýðshreyfingarinnar er ekki lokið og ekki ljóst hvernig hreyfingin á að vinna saman að kjarasamningum á komandi hausti.

Það er að vísu ekkert nýtt að aðildarfélög Alþýðusambandsins hafi ekki öll staðið saman, ekki frekar en stéttarfélög á opinberum markaði sem hafa myndað samningabandalög og ýmist verið saman eða sundruð og sagt sig úr samstarfi eða gengið til liðs við félaga sína á víxl.

Þessi orðræða forystu Eflingar er samt engu lík og bara þeim til vansa sem hana viðhafa.

Ágætu samkomugestir – þetta er ekki falleg heimsmynd sem við okkur blasir, hvorki nær eða fjær.

Missum samt ekki móðinn.

Við höldum áfram baráttunni fyrir bættum kjörum félagsmanna okkar um ókomin ár.

Veljum okkur samstarfólk og andstæðinga, eftir því hvað hæfir hverri orystu.

Verum þakklát því frelsi sem forverar okkar á liðinni öld, hafa tryggt okkur með kjarasamningum og með lagasetningu, starfsöryggi og starfsumhverfi .

Verum minnug þess að nóg er til.

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei