Breytt verð, bætt þjónusta en verri almenn umgengni

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Umsjónarmenn sumarbústaða félagsins segja að á haustin þegar félögin hætta að hafa vikuleigu sem skilyrði, þá versni umgengnin. Við viljum hvetja félagsmenn okkar til að ganga vel um sumarhúsin, sem eru okkar sameign. Félagsmaður sem dvelur helgi í bústað eða t.d. þrjá daga í miðri viku þarf jafnt að skúra, skrúbba og sá sem dvaldi í viku. Umsjónarmenn hafa þá sögu að segja að allt of margir hugsi sem svo að ekki þurfi að skúra eða þurrka af ef dvölin var stutt.

Verum minnug þess að við eigum að skilja við bústaðina eins og við viljum koma að þeim. Ef okkur finnst að næsti leigjandi á undan hafi ekki gengið nægilega vel um, þá er góður siður að skila húsinu í betra ástandi en maður kom að því. Væri það viðtekin venja þyrfti nú ekki að hafa áhyggjur af umgengni.

Þann 1. október verður breyting á gjaldskrá í bústöðunum og íbúðum félagsins:

Verðskrá frá 1.okt 2021
Nótt / 2 nætur** Helgi / 3 nætur* Vika
Ásatún 26 Akureyri 7.000 22.000 32.000
Húsafell  K 10 7.000 20.000 32.000
Ásholt 2 Reykjavík 14.000** 27.000 37.000
Ölfusborgir 5.000 15.000 22.000
Húsafell K 1 5.000 17.000 24.000
* Helgin frá fös til mán.
** Einungis hægt að fá 2 nætur eða meira
Utanfélags 15.000/30.000** 40.000 75.000

 

Í Ásholti 2 í Reykjavík þarf einungis að taka eigur sínar og ganga frá rusli í ruslageymslu, þar kemur svo eftirlitsaðilinn og þrífur íbúðina.

Í öðrum eignum þurfa leigendur að þrífa eftir sig. Hægt er þó að kaupa þrif í Ásatúni 26 á Akureyri og er það auglýst í íbúðinni. Þau þrif þarf að panta með minnst sólarhrings fyrirvara.

Kiðárskógur 1 tekur á móti gæludýrum frá 1. okt.

Fram að þessu hafa öll gæludýr verið bönnuð í öllum húsum og íbúðum félagsins en frá 1. október munum við heimila gæludýr í Kiðárskógi 1 í Húsafelli. Við viljum koma til móts við vaxandi fjölda félagsmanna sem eiga gæludýr og ætlum að gera tilraun í eitt ár. Það verður svo undir félagsmönnum sjálfum komið hvort þetta getur orðið áfram. Verði misbrestur á því að leigendur þrífi eftir dýrin og umgengni versnar þá áskiljum við okkur rétt á að afturkalla þessa breytingu fyrr.

Vissulega vonum við að til þess komi ekki.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei