Stéttarfélag Vesturlands skipar trúnaðarmenn á vinnustöðum að ósk viðkomandi starfsfólks. Trúnaðarmenn eru skipaðir til tvegga ára hið mesta. Ef þeir gefa kost á sér áfram eru þeir endurskipaðir án kosningar ef enginn býður sig fram á móti þeim.
Starf trúnaðarmannsins er mjög mikilvægt, bæði fyrir starfsfólkið og ekki síður fyrir viðkomandi vinnustaði. Þeir leysa oft úr ágreiningi og misskilningi, sem komið getur upp, skýra ýmsa þætti kjarasamninga og eru góðir tengiliðir við Stéttarfélagið.
Þessa dagana fer fram endurnýjun á umboði trúnaðarmanna á félagssvæði Stétt Vest. Þeir sem gefa kost á sér í störf trúnaðarmann í þessari umferð eru þá skipaðir til ársloka 2023. Það eru óvenju margir sem ekki gefa kost á sér til endurkjörs að þessu sinni. Stétt Vest hefur ekki nýtt sér ákvæði laga um að skipa trúnaðarmenn að þeim forspurðum. Það verður til þess að í sumum fyrirtækjum hafa ekki verið trúnaðarmenn árum saman. Félagið stendur fyrir námskeiðum fyrir trúnaðarmenn og þeir eiga rétt á að halda launum þegar þeir sækja námskeið á vegum félagsins.
Félagið skorar hér með á félagsmenn sína að taka umræðuna á hverjum vinnustað og sameinast um að kjósa trúnaðarmenn fyrir sig. Framundan er umræðan um endurnýjun kjarasamninga þannig að næsta kjörtímabil getur verið bæði áhugavert og lærdómsríkt.