Páskaeggin ódýrust í Bónus og Krónunni

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Bónus var oftast með lægsta verð á páskaeggjum í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var þann 28. mars, í 28 af 32 tilvikum. Krónan var með lægsta verðið í fjórum tilvikum og verð á öðum páskaeggjum í versluninni var einni krónu hærra en verð hjá Bónus. Krónan og Bónus voru með lægsta meðalverðið á páskaeggjum en Fjarðarkaup og Nettó með næst lægsta meðalverðið sem var að meðaltali um 5% hærra en verð í Krónunni og Bónus. Iceland var oftast með hæsta verðið á páskaeggjum, í 19 tilvikum af 32 og Hagkaup í 14 tilvikum en verð í báðum verslunum var um 17% hærra en lægsta verð. Heimkaup var með hæsta meðalverðið sem var 27% hærra en lægsta verð en einungis níu páskaegg af þeim sem voru í könnuninni fengust í versluninni.  

Páskaeggin dýrust í Heimkaup, Iceland og Hagkaup 

Heimkaup var lengst frá lægsta verði, en verð í versluninni var að meðaltali 27% hærra en lægsta verð. Iceland var oftast með hæsta verðið á páskaeggjum í 19 tilvikum og Hagkaup næst oftast, í 13 tilvikum. Verð á páskaeggjum í Iceland var að jafnaði 18% frá lægsta verði og verð í Hagkaup 17% frá lægsta verði. 

Krónan og Bónus voru að meðaltali með lægsta meðalverð á páskaeggjum þó 0,1% skilji á milli, Krónunni í hag. Verð á páskaeggjum var þriðja lægst í Fjarðarkaupum að meðaltali 5% hærra en lægsta verð en meðalverð í Nettó var einungis 0,2% hærra en í Fjarðarkaupum. Verð á páskaeggjum í Kjörbúðinni var að meðaltali 9% hærra en lægsta verð.  

Allt að 41% verðmunur á páskaeggjum 

Algengast var að 20-30% munur væri á hæsta og lægsta verði á páskaeggjum eða í 18 tilfellum af 32. Næst algengast var að 10-20% munur væri á hæsta og lægsta verði, í 13 tilfellum. Mest var 41% munur á hæsta og lægsta verði á Góu páskaeggi nr. 3. Lægst var verðið í Krónunni, 995 kr. og einungis þremur krónum hærra í Fjarðarkaupum, 998 kr. Hæst var verðið í Iceland, 1.399 kr. Í krónum talið var algengast að um 4-500 króna munur væri á hæsta og lægsta verði en mest var 820 kr. munur á hæsta og lægsta verði á Nóa Síríus konfekt páskaeggi. Lægst var verðið í Bónus, 3.679 kr., einni krónu hærra í Krónunni en hæst var verðið í Hagkaup, 4.499 kr.  

 

Um könnunina 
Ýmsar aðferðir eru til að varpa ljósi á niðurstöður í verðkönnunum með mörgum vörum og verslunum. Til að skýra betur verð hjá þeim verslunum sem eru hvorki oft með hæsta né lægsta verðið í verðkönnun og finna út meðalverð má reikna út hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru. Þannig raðast verslanirnar eftir því hversu langt verð á vörum í könnuninni er að meðaltali frá lægsta verði.  

Í könnuninni var hilluverð á 32 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.  

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ. 

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Lágmúla, Bónus Smáratorgi, Krónunni Lindum, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup Smáralind, Kjörbúðinni Sandgerði og á Heimkaup.is. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei