Félagsmenn: Til hamingju með Kvennafrídaginn!

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

ASÍ og önnur samtök launafólks á íslenskum vinnumarkaði hvetja félagsmenn aðildar-félaga sinna um allt land til virkrar þátttöku í viðburðum í tilefni Kvennafrídagsins, sem er í dag mánudaginn 25. október.


 


Í sameiginlegri yfirlýsingu samtakanna segir að samtök launafólks hafi frá upphafi barist fyrir bættum lífskjörum allra landsmanna, jöfnum rétti og jöfnum tækifærum á vinnumarkaði og þannig lagt sitt af mörkum í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.


Margt hafi áunnist í jafnréttismálum undanfarna áratugi og sé það ekki síst að þakka samstöðu samtaka launafólks. Gæta þurfi nú að þeim jafnréttisáföngum sem unnist hafa svo þeir tapist ekki á þeim erfiðleikatímum sem hófust í kjölfar efnahagshrunsins og ekki sér fyrir endann á.


Fram kemur í yfirlýsingunni að baráttan fyrir afnámi launamunar kynjanna hafi verið eitt meginbaráttumál kvenna á Íslandi. Ólíðandi sé að kynin skuli ekki njóta sömu launa fyrir jafnverðmæt störf.


 


Yfirskrift Kvennafrídagsins að þessu sinni er: Konur gegn kynferðisofbeldi. Samtök launafólks fordæma kynbundið ofbeldi og áreiti á vinnustöðum og í samfélaginu öllu og hvetja aðila vinnumarkaðarins, stjórnvöld og almenning allan til markvissra aðgerða gegn því.


Ársfundur ASÍ sendi sömuleiðis frá sér ályktun þar sem konur eru hvattar til virkrar þátttöku í viðburðum Kvennafrídagsins.


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei