Reglur um úthlutun úr einstaklingsdeild Sveitamenntar SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga

1. gr. Almennt um skilyrði fyrir umsókn:
  1. Félagsmaður sem unnið hefur fullt starf í a.m.k. 6 mánuði af síðustu 24 og greitt til aðildarfélags Sveitamenntar á þeim tíma á rétt á stuðningi til starfsnáms. Greitt er hlutfallslega fyrir fólk í hlutastörfum.  (Breytt síðast 1. janúar 2016)
  2. Við ákvörðun upphæðar er miðað við greidd félagsgjöld síðustu 12 mánaða. Félagsgjald af lágmarkslaunum í 100% starfi eða meira gefur fulla styrkupphæð.
  3. Fylla þarf út umsóknareyðublað og skila ásamt reikningi/kvittun til viðkomandi stéttarfélags. Umsókn um styrk þarf að berast viðkomandi stéttarfélagi innan 12 mánaða frá dagsetningu reiknings.
  4. Félagsmaður sem hverfur frá vinnu vegna veikinda, heimilisástæðna eða af öðrum gildum ástæðum, heldur rétti sínum til styrks enda komi hann aftur til vinnu eftir starfshlé og skal þá eiga rétt á greiðslu í samræmi við reglur.
  5. Foreldrar í fæðingarorlofi geta nýtt sér áunninn rétt skv. 1. gr. ef þeir velja að greiða félagsgjöld á meðan á orlofi stendur.
  6. Félagsmenn í atvinnuleit halda áunnum rétti sínum eins og hann var við starfslok ef þeir velja að greiða félagsgjöld af atvinnuleysisbótum.
  7. Áunnin réttindi félagsmanna innan Sveitamenntar SGS, Ríkismenntar SGS, Landsmenntar, Starfsafls, Sjómenntar og Starfsmenntasjóðs verslunar-og skrifstofufólks haldast óbreytt þrátt fyrir flutning á milli aðildarfélaga/deilda sjóðanna.
  8. Félagsmaður sem hverfur frá vinnu og hættir að greiða til aðildarfélags Sveitamenntar, heldur áunnum réttindum sínum til styrks í 3 mánuði. Að 3 mánuðum liðnum fellur réttur hans niður.
Með umsókn skal skila

Frumriti reiknings sem er á nafni félagsmanns þar sem fram kemur nám/námskeiðslýsing, nafn og kennitala fræðsluaðila. Ef ekki kemur fram staðfesting á greiðslu á reikningi þarf að skila til viðbótar staðfestingu á greiðslu, t.d. úr heimabanka eða greiðslukvittun frá viðkomandi skóla/fyrirtæki. Reikningur má ekki vera eldri en 12 mánaða.

Vegna umsóknar um styrk fyrir nám eða námskeið erlendis þarf að leggja fram frumrit reiknings á upprunalegu tungumáli og á ensku. Þá verður að vera sundurliðuð kostnaðarskipting, þ.e. ekki er greitt fyrir ferðir, gistingu og uppihald. Brýnt er að allur texti sé skýr og skilmerkilegur. Sé þýðing ekki fyrir hendi fæst ekki greiddur styrkur.

FRÆÐSLUÁTAK VEGNA COVID-19 – SJÁ HÉR
Hve mikið er greitt ?

Greitt er að hámarki kr. 130.000.- á ári f.o.m. 1. janúar 2020. Miða skal við almanaksárið. Aldrei er þó greitt meira en sem nemur 80% af námskostnaði. (gildistími frá 15. mars 2020 til 31. desember 2022). (Síðasta breyting á endadagsetningu gerð í sept. 2022).

Ath. nýjar reglur taka gildi 1. jan.2023 og gilda gagnvart námi/námskeiðum sem byrja eftir þann tíma.

Hlutfall styrks af heildarkostnaði fer að öllu jöfnu eftir samhengi starfs viðkomandi og þess náms sem sótt er um styrk til ásamt því að taka tillit til aðkomu þess sveitarfélags sem félagsmaður starfar hjá. Við það mat skal hafa eftirfarandi til grundvallar:

  • Þegar um er að ræða nám sem félagsmaður ákveður að taka að eigin frumkvæði og er í beinu samhengi við starf viðkomandi er sjóðnum heimilt að styrkja viðkomandi um allt að 90% af kostnaði við námið.
  • Ef um er að ræða almennt og viðurkennt nám sem leggja má til grundvallar undir annað starfstengt nám s.s. nám við öldungadeild eða viðurkennda fræðslustofnun (tungumálanám, tölvunám eða annað almennt nám) er sjóðnum heimilt að styrkja viðkomandi allt að 80% af kostnaði við námið. (gildistími frá 1. jan. 2022 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem byrja eftir þann tíma). (Síðasta breyting gerð í des. 2022).Það sama gildir um greiningu/próf sem leggja má til grundvallar frekara námi.
  • Veittir eru einstaklingsstyrkir vegna frístunda-/tómstundanámskeiða og er endurgreiðsla vegna þeirra 80% af kostnaði en aldrei hærri en kr. 130.000.- á ári (gildistími frá 1. jan. 2022 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem byrja eftir þann tíma). (Síðasta breyting gerð í des. 2022). og dregst jafnframt af heildarupphæð einstaklingsstyrks.
  • Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu þrjú ár, eiga rétt á styrk allt að kr. 390.000.-* fyrir eitt samfellt nám/námskeið skv. reglum sjóðsins.   Ferðakostnaður vegna náms getur að hámarki orðið kr. 130.000.- sem hluti af kostnaði náms/námskeiðs í þessu tilviki.  (*síðasta breyting á reglum, 1. janúar 2020, gagnvart því námi sem hefst f.o.m. þeim tíma)
  • Réttur ellilífeyrisþega: Ellilífeyrisþegar (félagsmenn aðildarfélaga SGS) halda rétti sínum til einstaklingsstyrkja í allt að 24 mánuði frá því þeir hætta að vinna.  Þetta er í samhengi við réttindi þeirra sem eru á tímabundinni örorku og annað sbr. 4. lið í reglum um einstaklingsstyrki. (samþykkt í mars 2012)
  • Starfstengt netnám: Vegna netnámskeiða þarf námskeiðið að hafa skilgreint upphaf, endi og vera með leiðbeinanda. Ef um áskrift að vefsíðu/efnisveitu með starfstengdum námskeiðum/kennsluefni er að ræða, styrkir sjóðurinn að hámarki aðgang til 1 árs.
  • Raunfærnimat: Vegna kostnaðarþátttöku einstaklinga í raunfærnimati (félagsmenn aðildarfélaga SGS sem ekki tilheyra markhópi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins; þ.e. fólki á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið námi á framhaldsskólastigi), geta þeir sótt um allt að 80% í styrk vegna þess.
2. gr. Styrkir til félagsmanna á sjúkradagpeningum

Félagsmenn sem taka sjúkradagpeninga skulu halda réttindum til styrks í allt að 6 mánuði eins og réttindi voru við starfslok.

3. gr. Styrkir vegna íslenskunáms

Félagsmenn sem hafa annað móðurmál en íslensku geta sótt um allt að 80% styrk vegna íslenskunáms eftir mánaðar félagsaðild í aðildarfélagi Sveitamenntar.

 4. gr. Ákvörðun um styrk ofl.

Viðkomandi stéttarfélag tekur ákvörðun um það hvort orðið skuli við umsókn um styrk, hversu hár hann skuli vera og afgreiðir hann í samræmi við reglur þessar.

Ferða- og dvalarstyrkir í tengslum við nám/námskeið

Þeir einstaklingar sem þurfa að sækja styrkhæft nám/námskeið um langan veg innanlands eiga rétt á stuðningi við ferða- og dvalarkostnað. Um er að ræða einstaklingsstyrk og sótt er um á sérstöku eyðublaði.
Styrkir eru afgreiddir af viðkomandi stéttarfélagi í umboði Sveitamenntar.
Reglur um sérstaka ferða-og dvalarstyrki:
• Akstur 50% af almennu kílómetragjaldi eins og það er ákveðið hverju sinni skv. taxta ferðakostnaðarnefndar.
• Ekki er tekið þátt í ferðakostnaði vegna aksturs sem er innan við 12 km frá námskeiðsstað eða skóla.
• Varðandi akstur og flug er alltaf gert ráð fyrir að menn velji ódýrustu leiðina.
• Flug: Heimilt verði að niðurgreiða kostnað um allt að 80% af hverju flugfargjaldi. (gildistími frá 1. jan. 2022 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem byrja eftir þann tíma). (Síðasta breyting gerð í des. 2022).
• Gisting: Heimilt verði að niðurgreiða hverja gistinótt á hótelum/gistiheimilum um að hámarki kr. 6.000.- þó aldrei hærra en 80% af verði gistingar pr. sólarhring. (gildistími frá 1. jan. 2022 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem byrja eftir þann tíma). (Síðasta breyting gerð í des. 2022).

Ferða-og dvalarstyrkir eru afgreiddir sér, en dragast frá hámarki einstaklingsstyrkja
Endurnýjaðar reglur gilda f.o.m. 1. Júlí 2013.

Sækja reglur um sérstaka ferða-og dvalarstyrki

Áfrýjunarréttur

Ef félagsmaður telur sig eiga rétt á styrki til starfsmenntunar, en er hafnað um styrk af viðkomandi verkalýðsfélagi, þá getur félagsmaður vísað umsókn sinni til stjórnar Sveitamenntar til afgreiðslu.

*Reglur þessar voru samþykktar á fundi sjóðstjórnar þann 12. janúar 2007. Þær geta tekið breytingum samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.
Breyting vegna 4. gr. reglna samþykkt 7. maí 2007
Breyting vegna 3. gr. tók gildi 1. janúar 2009 en þá var samþykkt að greiða út styrki um leið og viðkomandi félagsmaður legði inn umsókn ásamt reikningi/kvittun vegna náms/námskeiða.
Breyting gerð 1. júlí 2013 á reglum um sérstaka ferða-og dvalarstyrki
Breyting gerð 1. janúar 2020 – sérstakur styrkur í kr. 390.000.- (1.gr)
Breyting gerð 1. janúar 2018 – tómstundastyrkir 75%, hámark kr. 30.000.-
Breyting gerð 1. janúar 2020 á hámarki einstaklingsstyrkja í kr. 130.000.-

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei