Stéttarfélag Vesturlands og Kjölur stéttarfélag í almannaþjónustu mótmæla vinnubrögðum sveitarstjórnar Borgarbyggðar vegna fyrirhugaðs útboðs á ræstingum hjá ýmsum stofnunum sveitarfélagsins.
Stéttarfélögin og þeir félagsmenn þeirra sem starfa hjá Grunnskóla Borgarness sem skólaliðar með ræstingu furða sig á þessari ákvörðun.
Í nóvember 2022 segir m.a. í fundargerð Byggðarráðs um stöðu ræstinga að:
mikilvægt sé að horfa til gæða, sveigjanleika og fyrirsjáanleika í mönnun, hagkvæmni, áhrifa á starfsemi viðkomandi stofnana og á starfsfólk.
Við hörmum að nú sé ákveðið að bjóða út ræstingu í Grunnskóla Borgarness án þess að ræða við þær konur sem annast hana. Í starfslýsingum vegna ræstinga koma ekki fram öll þau störf sem þarf að sinna og fela m.a. í sér að hugga, snýta, hlúa að og leiðbeina, milli þess sem stundum þarf að þrífa upp allskonar líkamsvessa, vegna þess sem gerist í dagsins önn.
Við teljum að starfið hafi í raun gengið vel undir verkstjórn núverandi húsvarðar og skólinn verði í alla staði verri vinnustaður eftir, ef þessi ákvörðun verður látin standa.
Komi til þess að fjórum skólaliðum sem annast ræstingar o. fl. í Grunnskóla Borgarness verði sagt upp störfum , þá viljum við benda á að það er að okkar mati vanhugsuð ákvörðun, aðför að starfsfólkinu sem um ræðir og aumt yfirklór vegna lélegra stjórnarhátta