Viljum styðja lestrarkennslu á fyrsta skólastigi

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Stéttarfélag Vesturlands hélt 50. fund stjórnar félagsins þriðjudaginn 15. nóv. á fundinum var samþykkt eftirfarandi tillaga:


“  50. fundur stjórnar Stéttarfélags Vesturlands haldinn þriðjudaginn 15. nóvember 2011, í fundarsal félagsins í Alþýðuhúsinu, Sæunnargötu 2a í Borgarnesi, samþykkir að veita styrki til þeirra leikskóla sem starfa á félagssvæðinu. Styrkirnir nemi kr. 60.000.- til hvers skóla og skal nota til kaupa á kennslugögnum eða með öðrum hætti til að örva málþroska nemendanna og efla lestraráhuga þeirra.“


 


Leikskólarnir eru 8:


—  Auðarskóli í Dölum                         39 börn   9 starfsmenn


—  Hraunborg á Bifröst                        55 börn   13 starfsmenn


—  Hnoðraból í Reykholtsdal                 15 börn    5 starfsmenn


—  Andabær á Hvanneyri                     36 börn   11  starfsmenn


—  Ugluklettur í Borgarnesi                   65 börn  21 starfsmaður


—  Klettaborg í Borgarnesi                    60 börn  20 starfsmenn


—  Leikskólinn Laugargerði                   13 börn     2 starfsmenn


—  Skýjaborg í Hvalfjarðasveit              36 börn   10 starfsmenn


— alls eru  319 börn á leikskólunum og starfsmennirnir 91


 


Rétt er að geta þess vegna talna um fjölda starfsmanna eru ekki alltaf sömu forsendur  á bak við þær, þ.s. um mismunandi starfshlutfall er að ræða og einnig í sumum tilfellum um samrekstur með gunnskólum á viðkomandi svæði t.d. um mötuneyti og fl.


Stéttarfélag Vesturlands hefur á undanförnum árum lagt ýmsum góðum málefnum lið á félagssvæði sínu. Að þessu sinni var ákveðið að styðja  við yngstu kynslóðina.  Leikskólar eins og aðrar stofnanir sveitarfélaganna  á félagssvæðinu hafa fundið fyrir niðurskurði. Þó að upphæð  styrkjanna sem félagið leggur hverjum leikskóla til sé ekki há, þá er það von okkar að hún geti nýst vel. Við viljum líka sýna í verki áhuga okkar á því að efla menntun þjóðarinnar og mikilvægi þess að geta lesið sér til gagns. Fræðslusjóðir stéttarfélaganna sem urðu flestir til með kjarasamningum fyrir rúmum 10 árum hafa stutt starfandi félagsmenn til náms. Margir þeirra hafa einmitt þurft að byrja á því að takast á við lestrarörðugleika, þegar lagt hefur verið af stað til náms á nýjan leik. Nýlegar rannsóknir sýna að um fjórðungur ungra drengja í síðustu bekkjum grunnskóla geta ekki lesið sér til gagns. Þetta eru ekki góðar niðurstöður.  Stjórn Stéttarfélags Vesturlands vill hvetja til þess að þessu verði breytt og telur að því fyrr sem áhugi barna á bóklestri  er vakinn, því meiri líkur séu á því að þau nái góðum tökum  bæði á málnotkun og málskilningi. Við viljum líka hvetja foreldra  og ekki síst afa og ömmur til að segja börnunum sögur og lesa fyrir þau. Það að efla læsi og lestraráhuga er verkefni alls samfélagsins  og við viljum leggja okkar að mörkum.



 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei