Laust eftir miðnætti var skrifað undir kjarasamning við Norðurál í húsakynnum ríkissáttasemjara. Með undirrituninni lauk hartnær sex mánaða langri samningalotu. Síðasti sáttafundurinn hófst kl. 09:00 árdegis og lauk eins og áður sagði laust eftir miðnætti. Samninginn undirrituðu fulltrúar þeirra fimm stéttarfélaga sem að samningnum standa, en þau eru Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Akraness, Félag iðn- og tæknigreina (FIT), Rafiðnaðarsamband Íslands (RSÍ) og VR. Samningarnir verða kynntir á fundum með starfsmönnum á næstu dögum og hefst kynningin kl. 06:00 að morgni sumardagsins fyrsta og stendur svo á föstudag, mánudag og þriðjudag. Gert er ráð fyrir að hægt verði að greiða atkvæði um samninginn að kynningarfundum loknum. Kynningin verður í höndum formanns samninganefndarinnar Vilhjálms Birgissonar og aðaltrúnaðarmanns Frans Péturssonar og munu aðrir forystumenn koma að henni eftir atvikum.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri Ívar Örn Hauksson formaður Stóriðjudeildar Stétt Vest og trúnaðarmaður, Frans Pétursson aðaltrúnaðarmaður Norðuráls og Sigurður Einarsson trúnaðarmaður hjá FIT.
Samningurinn mun færa starfsmönnum á 1. ári 11,2% launahækkun, en inni í þeirri tölu er eingreiðsla upp á kr. 150.000 sem verður til greiðslu í maí 2010.
Heildarlaun vaktavinnumanna á 5 ára taxta eru nú kr. 406.418. Þau munu hækka í kr. 439.418 eða sem nemur kr. 33.000 á mánuði verði samningurinn samþykktur. Segja má að tekjur hækki um kr. 30.000 og upp í tæpar 34.000 kr. á mánuði. Samningurinn mun gilda frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2014. Hafa ber það í huga að launaliðurinn verður laus um næstu áramót og verður þá samið um hvernig þróun launaliða skuli háttað á samningstímanum.
Iðnaðarmenn sem starfa eftir samningnum eru að hækka heldur meira og er þar um að ræða ákveðna leiðréttingu og einnig breytt mat á réttindum og menntun.
Réttur til að boða vinnustöðvun náðist fram, en er þó háður ströngum skilyrðum.
Starfsmenn hafa lagt ríka áherslu á að ná til baka rétti til að boða vinnustöðvun sem takmarkaður var þegar fyrsti samningurinn var gerður við fyrirtækið og deildar meiningar hafa verið um hversu lengi þeirri takmörkun var ætlað að standa.
Einnig fylgir samningnum bókun um menntun starfsmanna. Náist þau áform sem þar eru sett fram gæti henni fylgt umtalsverð kjarabót og árangur fyrir fyrirtækið.
Þessu til viðbótar komu svo ákvæði inn í samninginn sem náðst hafa fram á almennum vinnumarkaði, s.s. lengra leyfi vegna veikinda barna, greiðslur í starfsmenntasjóði, betri ákvæði um slysatryggingar o.fl.
Samninganefndarmenn Stéttarfélags Vesturlands eru sammála um að ekki hafi verið möguleiki að ná fram betri samningi miðað við þá stöðu sem uppi var og mæla eindregið með því að samningurinn verði samþykktur.