Ástæða er til að vekja athygli á breytingum sem gerðar voru á lögum um atvinnuleysistryggingar með lögum nr. 70/2010, sem tóku gildi í júní sl. Breytingar þessar fela meðal annars í sér að þeir sem eru 60 ára eða eldri og hafa fengið skertar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði á tímabilinu 1. mars 2009 til dagsins í dag, vegna greiðslna úr séreignarlífeyrissjóði, geta átt rétt á endurgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur fjárhæð skerðingarinnar. Þetta á hins vegar ekki við um þá sem eru yngri en 60 ára þar sem greiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum skerða ekki greiðslur til þeirra úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Þeir sem eru 60 ára eða eldri og telja að greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til þeirra hafi verið skertar vegna greiðslna úr séreignarlífeyrissjóði á framangreindu tímabili er bent á að sækja um endurútreikning á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Nauðsynlegt er að láta kvittun eða greiðsluyfirlit vegna greiðslna úr séreignarlífeyrissjóði fylgja með umsókn um endurútreikning.
Framangreind breyting var m.a. gerð að kröfu ASÍ og aðildarsamtaka þess. Að vísu lagði ASÍ til að framkvæmdin yrði með þeim hætti að Greiðslustofa Vinnumálastofnunar sæi um framkvæmdina þannig að endurgreiðsla færi fram sjálfkrafa, en að ekki þyrfti að sækja sérstaklega um hana. Á það var hins vegar því miður ekki fallist.
Stéttarfélögin vilja koma þessum framangreindum upplýsingum á framfæri við félagsmenn sína sem ætla má að hafi fengið skertar atvinnuleysisbætur vegna töku séreignalífeyris. Þarna getur verið um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir viðkomandi einstaklinga. Umsóknarfrestur er til 1. september nk.
Allar frekari upplýsingar um málið og framkvæmdina má fá á vef Vinnumálastofnunar: http://www.vinnumalastofnun.is/frettir/nr/2163/