Stéttarfélag Vesturlands, ásamt Fit, VR, RSÍ og Vlfa, skrifuðu undir samkomulag um launalið kjarasamningsins við Norðurál í dag, 23. september. Um er að ræða viðauka við kjarasamning þessara aðila frá 19. apríl 2010. Verði viðaukinn samþykktur, þá munu laun starfsmanna Norðuráls hækka frá og með 1. janúar 2011 um 5,35% og aftur 1. desember 2011 um 5,35%. Næsta hækkun kemur svo 1. janúar 2013, 3,25% og svo 3% 1. jan. 2014. Auk þessa mun koma 3% hækkun á laun þeirra starfsmanna, sem þann 1. sept. 2011, hafa starfað hjá Norðuráli í þrjú ár eða lengur. Þeir starfsmenn, sem höfðu hafið störf fyrir 1. sept. sl. munu síðan fá 3% launahækkun þegar þriggja ára starfsaldri er náð. Þeir sem hefja störf eftir 1. sept. 2011 og uppfylla ákveðin skilyrði, sem hliðsjón verður tekin af, fá þessi 3%, þegar þeir hafa starfað í þrjú ár. Bil milli launaflokka iðnaðarmanna með tvöfalt sveinsbréf og/eða viðbótarmenntun, er aukið úr 3% í 4%. Síðast en ekki síst fylgir svo samningnum yfirlýsing frá fyrirtækinu um að innan árs verði búið að koma á fót formlegu starfsnámi. Að loknu þriggja anna grunnámi hækka laun starfsmanna um 5% og að loknu framhaldsnámi um 4%.
Samningurinn verður kynntur starfsmönnum nánar á næstu dögum og síðan verða greidd um hann atkvæði. Kynningarfundir verða auglýstir síðar.