Umsóknum í sumarútleigu orlofshúsa og íbúða hjá Stéttarfélagi Vesturlands fjölgaði um 50% milli ára. Boðnar voru 66 vikur til útleigu í 5 húsum, en umsóknirnar voru 76. Mestur vandinn er þó sá að flestir umsækjendur vilja fá hús, sömu vikurnar í júlí.
Síðasti dagur til að borga fyrir þær vikur sem þegar hefur verið úthlutað er föstudagurinn 22. maí. Mánudaginn 25. maí munum við svo úthluta þeim orlofskostum sem ekki hefur verið greitt fyrir. Þetta á einnig við um ógreiddar flugávísanir frá Iceland Express.
Eftir mánudaginn gildir reglan fyrstur kemur fyrstur fær. Aðeins eru eftir tvær vikur í ágúst í Ölfusborgum, íbúðin á Akureyri er laus eina viku í júní og tvær í ágúst. Bústaðurinn í Húsafelli er laus um mánaðamótin júní- júlí og svo eina viku í ágúst. Meira er hinsvegar laust bæði á Illugastöðum í Fnjóskadal og að Hafursá á Héraði. Félagið hefur undanfarin ár leigt sumarbústað að Einarstöðum á Héraði og mikil aðsókn hefur verið í hann en nú bregður svo við að fimm vikur eru lausar í bústaðinn að Hafursá sem er örlítið nær Hallormstað, þrjár í júlí og tvær í ágúst.